154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[15:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka fyrir þessa tillögu. Hún er ágætlega unnin og gott og þarft starf sem hefur verið unnið hér að og í nefndinni. Auk þess, eins og hv. þingmaður og framsögumaður kom hér inn á, hafa líka margir lagt inn góðar umsagnir sem er annt um veg íslenskrar tungu og því ber að fagna sérstaklega. En það er nú einu sinni þannig, herra forseti, að á Íslandi fer þeim hratt fjölgandi sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og íslenskan er eins og við þekkjum mjög fámennt tungumál, talað af mjög fáum, og það ætti að vera okkur vakning og hvatning um mikilvægi þess að vera stöðugt á varðbergi gagnvart þeim hættum sem blasa við tungumálinu okkar, ekki síst ofurvaldi enskunnar hér á landi.

Ármann Jakobsson, prófessor og formaður Íslenskrar málnefndar, hefur sagt að íslenskan sé sennilega eitt viðkvæmasta opinbera tungumálið í heiminum. Hann hefur jafnframt velt því fyrir sér hvort íslenskan muni hverfa algjörlega. Að sjálfsögðu finnst manni það vera óhugsandi en því miður þá gæti það orðið raunin í framtíðinni ef við grípum ekki inn í. Prófessor Ármann segir jafnframt að ofurvald enskrar tungu og litlir hvatar fyrir nýja íbúa á Íslandi til að læra íslensku sé ótvírætt mesta ógn sem steðjað hefur að sjálfstæði landsins síðustu áratugi. Ný íslensk sjálfstæðisbarátta þurfi að hefjast á því að margfalda íslenskukennslu nýrra íbúa með aðstoð hins opinbera. Ármanns segir jafnframt að sjálfstæði Íslands sé ógnað því að ef íslensk tunga og íslensk menning hverfur fækkar rökunum fyrir því að okkar fámenna þjóð sé sjálfstæð.

Þetta eru stór orð, herra forseti, en ber að sjálfsögðu að taka þau alvarlega, hér talar maður af þekkingu sem er formaður Íslenskrar málnefndar og hefur lagt sig mjög fram um að auka veg og virðingu íslenskunnar í okkar samfélagi og ber að þakka fyrir hans góðu störf.

Íslenskan er í stöðugri hættu. Það er bara staðreynd sem blasir við okkur. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu mjög mikilvæg. Stuðningur stjórnvalda er nauðsynlegur ef við ætlum að varðveita íslenskuna um ókomna framtíð. Ég held að allir hafi áttað sig á því hversu mikilvægt það er að stjórnvöld komi fram með trúverðuga stefnu og áætlun um það hvernig við snúum vörn í sókn. Það er jafnframt mikilvægt að þessi stuðningur beinist að réttum hlutum, þ.e. að peningunum sé varið þar sem þeir nýtast best og þörfin er mest.

Notkun ensku hefur aukist til muna hér á landi á undanförnum árum eins og komið hefur fram. Mikill fjöldi fólks hefur flust til landsins til lengri eða skemmri tíma til þess að vinna. Þeir eru ófáir staðirnir á Íslandi þar sem þarf að sækja þjónustu þar sem starfsmaðurinn talar ekki íslensku og ekki er hægt að gera sig skiljanlegan nema kunna ensku. Þetta er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni. Síðan hefur mikill fjöldi hælisleitenda komið til landsins á undanförnum misserum sem talar að sjálfsögðu ekki tungumálið. Það má aldrei vera, herra forseti, aukaatriði að fólk læri íslensku. Auðvitað á þingheimur að sameinast um það að vegur íslenskunnar verði sem mestur.

Nokkur umræða skapaðist hér í samfélaginu fyrir ekki svo löngu síðan um þann fjölda einstaklinga sem hafa haslað sér völl í leigubifreiðaakstri eftir að lögunum var breytt og tala ekki íslensku. Í Danmörku er það gert að skilyrði að sá sem hyggst starfa við farþegaakstur, hvort sem það eru leigubílar, rútur eða strætó, verður að standast próf í dönsku. Ekkert slíkt ákvæði er hér í lögum um að standast þurfi próf í íslensku til að stunda farþegaakstur. Ef einhvers staðar væri þörf fyrir slíkt þá tel ég að það væri hér á landi. Ég hef talað fyrir því að við viðhöfum sama fyrirkomulag og Danir. Við gætum lært margt af Dönum þegar kemur að lagasetningu. En það voru ekki allir sammála mér um það og einn hv. þingmaður sagði í blaðagrein að tillaga mín um að standast próf í íslensku til að stunda leigubifreiðaakstur væri heimskuleg. Hv. þingmaður lítur þá væntanlega svo á að stjórnvöld í Danmörku séu heimskuleg að gera kröfu um að standast þurfi próf í dönsku til að stunda farþegaakstur.

Herra forseti. Þingmenn eiga að hafa forgöngu um að standa vörð um íslenskuna í allri lagasetningu. Ég lít alla vega svo á að það sé ein af frumskyldum mínum sem þingmanns að standa vörð um íslenskuna.

Í tillögunni er í lið 2 rætt um að bæta gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Þar er talað um gegnsærra og skilvirkara kerfi verði mótað þar sem gæðastarf fræðsluaðila verði m.a. tengt markvissar við fjármögnun. Ég tek heils hugar undir þetta og mig langar að gera þetta aðeins að umtalsefni, fyrirkomulag kennslu. Ég hef nefnilega kynnt mér þetta og rætt við aðila sem hafa komið að þessari kennslu og vita hvernig henni er háttað og ég byggi minn málflutning á þessum samtölum sem ég hef átt við fólk sem þekkir vel til. Það kemur fram í þessum samtölum mínum við fólk sem stundar þessa kennslu og þekkir til og veit hvernig þessu er háttað að það er litið svo á að kennsla í íslensku fyrir útlendinga hafi langt í frá skilað þeim ávinningi sem ætlast er til miðað við allt það fjármagn og alla þá vinnu sem lögð hefur verið í málaflokkinn.

Ég vil nefna hér nokkur atriði. Allt of algengt er að nemendur sem hafa tekið námskeið í íslensku hafi lítið sem ekkert lært á þessum námskeiðum og mörg dæmi eru um að fræðsluaðilar gefi út vottorð eða skírteini sem staðfesta að ákveðinni færni hafi verið náð en síðan er ekki innstæða fyrir þessari færni. Það má nefna nokkur atriði sem valda þessum slaka námsárangri. Þar er nefnt til sögunnar að hópastærðir eru allt of stórar og það er viðurkennt að í málanámi er æskilegt að það séu ekki fleiri en átta manns í hóp. Bakgrunnur nemenda í hópum er allt of ólíkur. Menntun, aldur og fleiri atriði skipta þarna máli. Því miður er það svo að kennarar endast of stutt í kennslu í íslensku fyrir útlendinga og hafi ekki nægilega þekkingu á íslensku eða erlendum málum eða kennslu tungumála almennt. Síðan þarf að bæta námsefnið. Kennsluaðferðir sem notaðir eru víða ganga ekki upp og það er nú einu sinni þannig að það er ekki hægt að læra íslensku að nokkru ráðið nema leggja áherslu á málfræði. Það er almennt ekki gert eða of lítið af því í íslenskukennslu í dag. Lögð er áhersla á þær kenningar í málanámi sem segja að það að læra annað mál sé eins og að læra móðurmálið, þ.e. best sé að hlusta og endurtaka, en þessi aðferð dugar skammt í kennslu í íslensku fyrir útlendinga. Kennarar ættu að geta farið á endurmenntunarnámskeið í kennslu íslensku sem annars máls. Það þarf að samræma færnimarkmið við lok hvers áfanga með stöðuprófum til samanburðar og það er einmitt hér sem stjórnvöld þurfa að grípa inn í. Ég vona að svo verði. Það er í raun og veru ekki hér við ráðuneytið að sakast hvernig til hefur tekist. Það er búið að veita miklum peningum og háum upphæðum til fræðsluaðila á síðustu árum, bæði frá ríkinu og einnig starfsmenntunarsjóðum verkalýðsfélaga, en fræðsluaðilar verða hins vegar að standa sig betur. Þetta er samdóma álit þeirra sem ég hef rætt við sem koma að þessu.

Það þarf að greiða götu þeirra sem vilja læra íslensku og það er þannig að það geta allir lært íslensku. En ef þeir sem tala ekki íslensku sjá að þeir þurfa þess ekki þá eru litlar líkur á að þeir læri íslensku. Það verða að vera hvatar til að læra málið og það er einmitt þess vegna sem stjórnvöld verða að setja reglurnar. Þess vegna bind ég miklar vonir við þessa þingsályktunartillögu. Hún er vel unnin og hér eru mörg mikilvæg atriði sem koma fram og það hefur verið lagður mikill metnaður í þessa tillögu sem ég fagna. Stjórnvöld verða að vera reiðubúin að búa til þessa hvata og ég vona svo sannarlega að þessi tillaga verði framkvæmd hið fyrsta. Við vitum og þekkjum það að leiðin að samfélagslegri þátttöku liggur um málið. Að lokum vil ég segja það, herra forseti, að vöxtur og viðhald íslensku er brýnt hagsmunamál okkar allra.